Okkur er sönn ánægja að tilkynna að dómnefnd Drekaslóðar hefur nú lokið störfum og var hún einhuga í vali sínu á vinningshugmyndinni fyrir nýju merki samtakanna. Það var samt sem áður ekki auðvelt að velja og tók nefndin sér góðan tíma í valið auk þess sem allir skiluðu rökstuðningi fyrir vali sínu.
Sú hugmynd sem varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni okkar var mynd Sigrúnar Rós Sigurðardóttur.
Myndin var talin hafa staðið best fyrir það sem upprunalega merkið stóð fyrir.

Blái liturinn þótti sterkur í merkinu enda táknar hann meðal annars andlegt ferðalag einstaklings og mismunandi leiðir í lífinu. Alþjóðlega stendur blár litur fyrir: Visku, dýpt, stöðugleika, traust, hollustu, lækningu, heilsu, ró, mýkt, dýpt vitundarinnar og kraft vitsmuna.
Dómnefndin taldi einnig drekann í teikningunni vera bæði mjúkan en líka harðan. Hann er líka með bæði dökkar hliðar en einnig ljósar. Merkið þykir standa vel fyrir margbreytileika þess að vera manneskja sem fetar sig eftir slóð drekans og í átt að betra lífi og betri líðan. Vegurinn þangað er alltaf einstakur fyrir hverja manneskju fyrir sig og því er mikilvægt að hver og einn fái frelsi til þess að velja sína eigin slóð.
Við í Drekaslóð viljum þar með öll óska Sigrúnu Rós innilega til hamingju með sigurinn! Við viljum um leið taka það fram að starf dómnefndar var alls ekki auðvelt og viljum við þakka öllum þeim sem sendu inn myndir, kærlega fyrir þátttökuna!
Hugmyndirnar voru hverri annarri betri og greinilegt að listamennirnir sem sendu inn hugmyndir til okkar eiga framtíðna fyrir sér.
Í dómnefnd sátu:
Úlfur Atli Czubaiko, Hrafn Laxdal, Ruth Ásdísardóttir, Skúli Jón Unnarsson og Thelma Ásdísardóttir.
Drekaslóð þakkar dómnefndinni fyrir vel unnin störf.
Mikið er þetta áhugavert!