DREKASLÓÐ

Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur allskyns ofbeldis og aðstandendur þeirra.

Einelti

Hvað er einelti?

Einelti er ofbeldi. Margar skilgreiningar eru til á hugtakinu einelti, m.a. þessi hér:
Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur eru tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.
 

 

Einelti hefur margvíslegar birtingarmyndir:

Munnlegt ofbeldi – Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Þeir sem beita ofbeldinu hvíslast t.d. á um fórnarlambið, flissa og hlæja.
Félagslegt ofbeldi – Barnið er skilið útundan í leik, því er ekki boðið að taka þátt í samkomum með bekkjarfélögunum eins og t.d. afmælisveislum. Barnið þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
Efnislegt ofbeldi – Eigum fórnarlambsins er stolið, t.d. skólabókum, pennaveski, skólatösku, nesti eða íþróttafatnaði eða þessir hlutir eru eyðilagðir.
Andlegt ofbeldi – Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, s.s. girt er niður um barnið, það látið eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans. Barnið fær endurtekið neikvæðar athugasemdir og hótanir, ýmist í daglegum samskiptum eða í gegnum netið eða GSM –síma.
Líkamlegt ofbeldi – Gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað, hárreitt og sparkað er í það og því hrint.
Sjá nánar: Niðurstöður starfshóps um tillögur um aðgerðir gegn einelti í grunnskólum.
Yfirleitt ríkir ójafnvægi í persónulegum og/eða líkamlegum styrk geranda og þolanda, þannig að þolandi stendur höllum fæti gagnvart geranda/gerendum.
Algengt er að börn gantist í góðu, tuski hvert annað til og kalli hvert annað ýmsum nöfnum, án þess að nokkrum detti í hug að um einelti sé að ræða. Það sem skilur á milli þess og eineltis er samband gerandans og fórnarlambsins og tilgangurinn með samskiptunum. Ef annar aðilinn hefur yfirhöndina og tilgangur hans með samskiptunum er að valda líkamlegum eða andlegum sársauka hins er um eineltistilvik að ræða, sérstaklega ef um síendurteknar athugasemdir eða ofbeldi er að ræða.
Börn og unglingar sem lenda í einelti eru yfirleitt ekki mjög örugg og leikin félagslega.
 

Einkenni þolenda eineltis:

Barni sem lagt er í einelti líður illa, það verður öryggislaust, einmana og tortryggið. Barn sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfu sér jafnvel um og finnst eitthvað vera að sér. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis. Hugsanlega er um einelti að ræða ef barnið kvartar undan vanlíðan (t.d. magaverk eða höfuðverk) á morgnana, vill ekki fara í skólann, er hrætt við að ganga eitt í skólann eða heim.
Einnig ef barnið kemur heim í öllum hléum í skólanum eða hættir að sinna náminu eins vel og áður. Auk þess eru líkur á einelti ef barn fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur eða kemur heim með marbletti eða skrámur sem það getur ekki útskýrt. Önnur einkenni þess að barn sé lagt í einelti eru t.d. að barnið leikur sér ekki við önnur börn, vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum, verður árásargjarnt og erfitt viðureignar, byrjar að stama, missir sjálfstraustið og neitar að segja frá hvað amar að.
Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið, hafa samband við umsjónarkennara barnsins og e.t.v. foreldra bekkjarfélaga þess.
Borgartúni 30
2. hæð
105 Reykjavík
Sími 551 5511 860 3358
drekaslod@drekaslod.is

Ef þú ert aflögufær skiptir það okkur miklu máli að þú styrkir okkur.  Með því hjálpar þú okkur að styðja fólk í neyð.

Hvert viltu fara:
Upplýsingar:
Samband:
Miðstöðin er fyrir alla, bæði konur og karla og aðstandendur þeirra.  Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú telur þörf á.

Drekaslóð er fræðslu og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.

DREKASLÓÐ