Er Drekaslóð fyrir þig?
Drekaslóð er í mikilli sérstöðu í samfélaginu. Allt frá upphafi höfum við vandað okkur sérstaklega við að setja ekki merkimiða á einstaklinga sem leita til okkar. Hjá okkur skiptir kyn eða uppruni engu máli af því að við teljum mikilvægast að bjóða alla velkomna sem vilja leita til okkar. Við vinnum ekki út frá hefðbundinni hugmyndafræði um að eitt kyn sé líklegast til þess beita ofbeldi og að annað sé oftast þolandi ofbeldis. Ofbeldissögur eru alls konar og margir eiga margvíslegar sögur. Því miður er það þannig að allir geta beitt ofbeldi óháð kyni eða uppruna, og að sama skapi geta þar með allir orðið þolendur ofbeldis.
Við störfum eftir mannúðarhugmyndafræði og nálgumst hvern einstakling á sínum eigin forsendum. Við trúum því staðfastlega að einstaklingurinn hafi kraftinn innra með sér til þess að lifa fallegu og hamingjusömu lífi. Við vitum líka að hver einstaklingur er sérfræðingur í sínu eigin lífi og við göngum út frá því. Við erum hér til staðar, aðstoðum og leiðbeinum þér til þess að finna aftur valdið og fegurðina innra með sjálfum þér.
Drekaslóð er fyrir:
- Fyrir öll kyn.
- fyrir fólk sem hefur lent í einelti í æsku eða á fullorðinsárum.
- Fyrir fólk sem hefur verið beitt hverskonar kynferðislegu ofbeldi.
- Fyrir alla sem hafa verið beittir hvers konar ofbeldi í parasamböndum.
- Fyrir hreyfihamlaða, eða alla þá sem hafa skerta getu á einhvern hátt.
- Fyrir fjölskyldur, vini og ættingja þolenda ofbeldis.
- Fyrir maka þolenda ofbeldis.
- Fyrir fólk sem þurfti að þola vanrækslu í æsku.
- Fyrir alla sem hafa þurft að líða vegna ofbeldis.
- Fyrir þá sem vilja fræðslu um ofbeldi og afleiðingar þess.
- Fyrir þá sem hafa orðið fyrir stafrænu og samfélagslegu ofbeldi.