DREKASLÓÐ

Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur allskyns ofbeldis og aðstandendur þeirra.

Sögur þolenda

 

Hugurinn.

Hugurinn er óskýr. Alltof margar hugsanir vilja komast að í einu.
Þessi blessaði hugur sem er oft svo mikill lygalaupur þar til tekst að róa hann og fá nýja og ferska tengingu við annan og meiri huga. Hann sem hefur yfirsýn og áætlanir til blessunar.
En hugur minn er ókyrr eins og vindurinn í dag. Ég er á leið í viðtal hjá Drekaslóð. Kvíðinn er töluverður og óöryggiskennd er yfir mér. Samt veit ég að það er svo gott að fara og enn betra á eftir. Já,svona svipað og að fara í sturtu.
Framkvæma ekki hugsa.
Hugurinn blekkir og lætur frekjulega,hann heimtar óskipta athygli,þetta
úttroðna egó fullt af blekkingum og svikum.
Fjólublái Drekinn.
 

“Ævintýri æskunnar.“

Barnið grét með skelfingu í augum,gráturinn var orðinn að ekka.
Svona,svona vinan,ég var bara að grínast sagði mamman á meðan hún fylgdist með dóttur sinni með meinfýsnu brosi og uppglenntum áhugasömum augum. Ég var bara að búa þetta til.
Einu sinni sem oftar hafði þessi móðir spunnið upp sögu fyrir yngri dóttur sína. Sögu sem byrjaði skemmtilega og spennandi en endaði nærri alltaf með skyndilegum hryllingi. Þessi kona mátti eiga það, að hún hafði afar sannfærandi frásagnarhæfileika. Í augum barnsins var engu líkara en að mamman hyrfi og hreinlega rynni saman við sögupersónurnar, skrímslið,nornina,Grýlu eða vonda kallinn.
Sögurnar áttu það yfirleitt sameiginlegt að góða fólkið var pyntað á ýmsan hátt og svo drepið. En eftir urðu vondir kallar eða skrýmsli sem hlógu með illskulegu urri að öllu saman.
Að lokum má svo geta þess að uppáhalds setning þessarar móður var og er enn þann dag í dag:“Aðgát skal höfð í nærveru sálar“! Einmitt!
Fjólublái Drekinn.
 

Að taka á sig ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu jafnvel eftir að ofbeldissambandinu er lokið.

Skrifað 2004
Fór að velta fyrir mér þeirri aldagömlu vanþekkingu að þolandi ofbeldisins taki á sig ábyrgðina á því, sem og ábyrgðina á því að leyna ofbeldinu. Man sjálf að það sem hefti mig lengi vel við að koma fram og segja mína sögu sem þolandi ofbeldis var einmitt það  að ég vildi ekki opinbera ofbeldið, vegna þess að þar með væri ég að opinbera það fyrir fjölskyldu hans, auk þess sem og mér fannst ég vera að opinbera fjölskyldu hans.
Það hefur nefnilega alltaf verið sá misskilningur í gangi að fjölskylda ofbeldismannsins hljóti að eiga einhverja sök á því hvernig komið er. Einhverja sök þess að gerandinn hegðar sér eins og hann gerir.  Það er, að sú sök sem ekki sé hægt að setja á þolandann sjálfan (því þolandinn hefur alltaf verið sakaður) sé sett á fjölskyldu gerandans.  Sennilega er þessi hugsun sprottin aðallega vegna þess að það hefur tíðkast að horfa á gerandann sem einhvern sem á bágt og getur því ekki stjórnað sér.  Oftast er þá þolandanum kennt um, hann hljóti að vera svo ómögulegur að gerandinn hafi engin önnur úrræði en að bregðast við með ofbeldi.  Ef þolandinn á ekki sökina er oft litið á að ástæðurnar séu uppeldislegar. Gleymist að horfa á að það er alveg sama hverjar aðstæður í uppeldi eða ofbeldissambandinu eru,  þá er það alltaf fullkomin ábyrgð gerandans hvernig hann bregst við.  Hann einn getur stjórnað því á hvaða hátt hann bregst við og þar af leiðandi að hann bregðist við með ofbeldi.  Hann einn ber ábyrgðina á þeirri ákvörðun sinni og þar af leiðandi ekki við neinn annan að sakast.
Eins og ég sagði fyrst þá velti ég þessu mikið fyrir mér áður en ég kom fram með mína sögu því sjálf óttaðist ég að foreldrar og fjölskylda hans yrðu gerð ábyrg á ofbeldinu  að einhverju leiti. Það hefur þó aldrei verið á nokkurn hátt þeirra ábyrgð í mínum huga en ég vildi samt ekki valda því að augu fólks beindust að þeim.  En ákvörðun mín um að koma fram var byggð á því að ég vildi opna augu almennings fyrir ofbeldismálum og þá yrði þessi hluti að vera eitt af því hugsaði ég.
Síðar var það í raun systir mín sem hjálpaði mér að sjá þetta í alveg nýju ljósi án þess að hún gerði sér grein fyrir hve mikilvæg orð hennar voru.  Þannig var að þegar ég átti afmæli og var á skemmtistað ásamt vinum og fjölskyldu hitti ég bróður mannsins míns fyrrverandi. Tókum við tal saman og meðal annars voru þessi mál rædd. Það sem hann var ósáttastur við í sambandi við að ég kom fram var einmitt það að eins og hann orðaði það "þú (ég) hefði nú getað hugsað um að X ætti foreldra áður en þú (ég) ákvaðst að koma fram".  Ég fékk sting í magann því hann margítrekaði í samtali okkar einmitt það sem olli mér sem mestri vanlíðan áður en ég tók endanlega ákvörðun.  Því ég vildi ekki á nokkurn hátt særa fjölskyldu hans. Systir mín hlustaði á þetta í nokkurn tíma og lagði inn orð við og við.  Að lokum ofbauð henni endurtekning fyrrverandi mágs míns á þessum hluta og sagði við hann " x hefði sjálfur átt að hugsa um að hann ætti foreldra á meðan hann var að berja Dísu"
Þar með enduðu samræður okkar við manninn en ég hugsaði mikið um þessi orð systur minnar því þau sýndu mér sannleikann í alveg nýju ljósi.  Þarna loksins gat ég viðurkennt fyllilega það sem satt og rétt er að ég ætti ekki að bera ábyrgð á að leyna ofbeldinu á nokkurn hátt. Ábyrgðin á ofbeldinu var ekki mín og ég þurfti ekki að hafa sektarkennd yfir að tala um ofbeldið. Ef einhver ætti að hafa sektarkenndina yfir að fjölskyldan frétti af því, þá væri það enginn annar en x því hans var ákvörðunin um að beita ofbeldinu og einn hluti ábyrgðarinnar því sá, að aðstandendur gætu fengið veður af því hvað um væri að vera.
Hjördís H. Guðlaugsdóttir
 

Fyrirsögn

Ég hafði verið niðrí bæ þessa nótt, ég var búin að drekka, ég hafði sofið hjá honum áður - Það réttlætir ekki að hann hafi nauðgað mér.
Ég öskraði ekki, ég barði ekki frá mér eða sparkaði - Það gerir nauðgunina ekki léttvægari.
Ég sagði honum að hætta og ýtti við honum, en hann hlustaði ekki. Hann er ekki tröllvaxinn eða ógnvekjandi maður. Hann er frekar hress og skemmtilegur - En það þýðir ekki að hann hafi ekki nauðgað.
Ég lét eins og ekkert hefði gerst daginn eftir, tók til eftir partýið og spjallaði - Það þýðir ekki að mér hafi ekki verið nauðgað.
Ég lagði ekki fram kæru fyrr en viku eftir að þetta gerðist, ég þurfti að hugsa mig um hvort ég vildi ganga í gegnum þetta ferli því ég vissi fullvel að líkurnar á sakfellingu væru sáralitlar - Það þýðir ekki að hann hafi ekki nauðgað mér. (Þó að við yfirheyrslu hafi ég verið spurð afhverju ég hafi lagt fram kæru svona seint. Mér fannst það ekkert seint, og spurði reyndar hvort 7 dagar þættu of seint.)
Ég trúði í raun ekki því sem hafði gerst. Hafði aldrei ímyndað mér að svona lagað gæti hent mig og þá ef ske kynni yrði það eitthvað ógeð sem myndi ná að króa mig af í húsasundi og ég myndi bara sparka í punginn á honum. Það var ekki mjög úthugsað hjá mér, bara basic viðbrögð sem myndu koma. Eða er það ekki annars?
Nei reyndar var mjög lítið af því sem gerðist sem passaði inn í hinn hefðbundna “nauðgunarramma” sem ég hafði búið mér til og það var ekki auðvelt að sleppa afneituninni sem ég hafði gert mér upp og sjá aðalatriðið þ.e. ég vildi ekki ríða, en hann gerði það samt!
Ég kærði hann eftir að hafa hugsað mig vel um. Ekki vegna þess að ég hafi haft tröllatrú á réttarkerfinu í  málum sem þessum, heldur vegna þess að ég vildi senda skilaboð til hans; þetta var ekki í lagi. Ég vildi að systir mín, vinkonur hennar, vinkonur mínar, frænkur okkar og allra kvenna og allra karla; að nauðga er ekki í lagi.
Málinu var vísað frá og hann fór aldrei fyrir dóm, eins og með flest önnur mál af þessum toga. Skilaboðin sem ég sendi bárust misjafnlega til sameiginlegra vina okkar, þeim fannst þeir ekki geta tekið afstöðu með eða á móti afþví ákæran var felld niður. Lengi vel þóttist ég nú skilja það að fólk þyrfti nú ekki að velja. Seinna áttaði ég mig þó á því að sú afstaða er ekki hlutlaus. Hlutlaus afstaða er ekki til þegar að ráðist er á einhvern sem þú þekkir. Auðvitað hefði verið þægilegra fyrir alla aðra að láta eins og ekkert hefði í skorist.  Ég ákvað hinsvegar að standa með sjálfri mér og ég sé ekki eftir því. Það að kæran hafi ekki farið fyrir dóm segir einungis að sannanir hafi ekki verið nægar til þess að sakfelling væri líkleg. Hann nauðgaði mér samt. Ég á rétt eins og allir aðrir, þann rétt að leita réttar míns þegar á mér er brotið.
Ég á margt dásamlegt fólk í kringum mig sem hafa heilshugar stutt mig í gegnum þetta allt. Ég er búin að læra hverjir standa með mér, og oft kom það mér svo á óvart hverjir það eru. Ég kann svo vel að meta það allt.
Stöndum á móti ofbeldi og með okkur sjálfum. Alltaf!
Eydís Arna
 
Borgartúni 30
2. hæð
105 Reykjavík
Sími 551 5511 860 3358
drekaslod@drekaslod.is

Ef þú ert aflögufær skiptir það okkur miklu máli að þú styrkir okkur.  Með því hjálpar þú okkur að styðja fólk í neyð.

Hvert viltu fara:
Upplýsingar:
Samband:
Miðstöðin er fyrir alla, bæði konur og karla og aðstandendur þeirra.  Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú telur þörf á.

Drekaslóð er fræðslu og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.

DREKASLÓÐ