DREKASLÓÐ

Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur allskyns ofbeldis og aðstandendur þeirra.

Spurningalistar

Hér eru spurningar sem mjög gott er að nýta sér til að meta betur hvort um ofbeldi er að ræða í sambandi eða ekki.

Gott er að prenta þá út og lesa yfir og fylla í þá í góðu tómi.

 
 

 

.
 
Andlegt ofbeldi
 • Gerir lítið úr mér og gagnrýnir mikið.  Hæðist að mér.  Ég virðist aldrei gera neitt rétt.
 • Gerir lítið úr vitsmunum mínum og reynslu.
 • Segir að ég sé óaðlaðandi.
 • Segir að eitthvað sé að mér, jafnvel að ég eigi við geðræn vandamál að stríða.
 • Segir að ég geti ekki bjargað mér eða staðið á eigin fótum án hans/hennar.
 • Segir að engin annar/önnur muni vilja mig og lætur eins og ég eigi að sýna þakklæti fyrir að fá að vera í þessu sambandi.
 • Niðurlægir mig og gerir lítið úr mér fyrir framan aðra.
 • Ber ekki virðingu fyrir tilfinningum mínum og líðan.
 • Ásakar mig að ósekju um að vera ótrú/r í sambandinu.
 • Kallar mig ljótum nöfnum.
 • Hótar að skilja við mig og koma því þannig að ég muni missa börnin mín (séu þau til staðar).  Hótar að nota barnavernd og/eða að segja börnunum stöðugt hversu hræðileg manneskja ég sé svo þau muni ekki vilja vera í neinu sambandi við mig.
 
Eftirlit og framkoma
 • Kemur fram við mig eins og ég sé þjónn og sýnir reiði eða æsing ef ég hef ekki sinnt öllu sem mér var ætlað að gera.
 • Krefst þess að ég hlýði og skipar mér frekar en að óska eftir einhverju.
 • Verður mjög reið/ur ef ég mótmæli eða er á annarri skoðun.
 • Virðist stöðugt vera að fylgjast með mér.  Hringir mikið ef ég er ekki heima, vill vita nákvæmlega hvenær ég kem heim og sýnir reiði og æsing ef það stenst ekki.  Skoðar jafnvel símann minn, opnar einkapóst og fer inn á mínar persónulegu síður á netinu.
 
Kynferðislegt ofbeldi
 • Krefst kynlífs hvort sem ég kæri mig um eða ekki.
 • Gerir kröfu um kynlífsathafnir sem ég er ósátt/ur við og nýt ekki.
 • Hæðist að mér, gerir lítið úr mér eða sýnir ógnandi viðbrögð ef ég vil ekki eitthvað sem farið er fram á, eins og að horfa á klám, bjóða öðrum með í kynlífið eða annað sem ég hef ekki áhuga á.
 • Áreitir mig kynferðislega.
 • Talar niðrandi um mig á kynferðislegan hátt við aðra.
 
Einangrun
 • Sýnir afbrýðissemi og tortryggni gagnvart vinum mínum og fjölskyldu og reynir að koma í veg fyrir að ég umgangist mitt fólk.
 • Gerir lítið úr vinum mínum og/eða fjölskyldu og gagnrýnir þau mikið.
 • Reynir að fá mína nánustu (börn, foreldra, systkini og fl.) uppá móti mér.
 • Finnst að ég eigi helst að vera heima og sjá um heimili og börn (séu þau til staðar) og dregur úr mér að fara í vinnu eða í nám, þó ég sýni að ég vilji það.
 • Reynir að koma í veg fyrir að ég sinni áhugamálum, sérstaklega ef þau eru utan heimilisins og/eða þau tákna samskipti við vini og kunningja.
 • Reynir að einangra mig.
 
Líkamlegt ofbeldi og ógn
 • Ógnar mér með svipbrigðum, bendingum og/eða hnefanum.
 • Ógnar mér með hníf eða öðru sem hægt er að nota sem vopn.
 • Slær mig, klípur eða beitir mig annars konar líkamlegu ofbeldi sem meiðir og hræðir mig.
 • Beitir mig það alvarlegu líkamlegu ofbeldi að ég þarf að leita mér læknishjálpar.
 • Hrópar og æpir á mig.
 • Ég finn fyrir ótta í samskiptum okkar og stundum yfirhöfuð.
 • Hótar að skaða þig eða ástvini þína.
 • Hótar að skaða sjálfan sig ef ég fer ekki að óskum hans/hennar.
 • Hefur sagt eða sýnt í hegðun (eins og með hálstaki) að hann/hún vilji drepa mig.
 • Eyðileggur hluti sem ég á viljandi.
 
Fjárhagslegt ofbeldi
 • Beitir mig einhvers konar fjárhagskúgun, til dæmis með því að skammta mér peninga til notkunar fyrir heimili (og þá stundum of naumt).
 • Stýrir mínum tekjum, er jafnvel með eina aðganginn að mínum launareikning.
 • Krefur mig stöðugt skýringa á því í hvað ég sé að setja mína peninga og sýnir reiði/ógnandi hegðun eða refsar mér ef ég er “eyða í óþarfa” að hans/hennar mati.
 
Ofbeldi á netinu
 • Hótar að setja myndir af mér á netið sem ég vil ekki að aðrir sjái, eins og nektarmyndir.
 • Hótar að segja eitthvað um mig opinberlega sem ég vil ekki að komi fram eða sem er lygi.
 • Biður ekki um leyfi til þess að ræða mig á netinu eða setja inn myndir af mér
 • Notar netið til þess að reyna níða mig.
 • Áreitir mig með stöðugum skilaboðum á neti eða í síma.
 • Hefur sett eitthvað um mig á netið sem ég vildi ekki.
 • Notar nafnið mitt eða mynd af mér til þess að skrá mig á síður án þess að fá leyfi eða án þess að ég viti af því.
 
Þetta er ekki tæmandi listi, ofbeldi getur að sjálfsögðu birst á margan annan hátt.  Þetta er ekki hugsað sem próf, aðeins sem leiðbeinandi verkfæri til þess að máta sig við.
 
 
Borgartúni 30
2. hæð
105 Reykjavík
Sími 551 5511 860 3358
drekaslod@drekaslod.is

Ef þú ert aflögufær skiptir það okkur miklu máli að þú styrkir okkur.  Með því hjálpar þú okkur að styðja fólk í neyð.

Hvert viltu fara:
Upplýsingar:
Samband:
Miðstöðin er fyrir alla, bæði konur og karla og aðstandendur þeirra.  Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú telur þörf á.

Drekaslóð er fræðslu og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.

DREKASLÓÐ