Drekaslóð er í mikilli sérstöðu í samfélaginu. Allt frá upphafi höfum við vandað okkur sérstaklega við að setja ekki merkimiða á einstaklinga sem leita til okkar. Hjá okkur skiptir kyn eða uppruni engu máli af því að við teljum mikilvægast að bjóða alla velkomna sem vilja leita til okkar. Við vinnum ekki út frá hefðbundinni hugmyndafræði um að eitt kyn sé líklegast til þess beita ofbeldi og að annað sé oftast þolandi ofbeldis. Ofbeldissögur eru alls konar og margir eiga margvíslegar sögur. Því miður er það þannig að allir geta beitt ofbeldi óháð kyni eða uppruna, og að sama skapi geta þar með allir orðið þolendur ofbeldis.
Við störfum eftir mannúðarhugmyndafræði og nálgumst hvern einstakling á sínum eigin forsendum. Við trúum því staðfastlega að einstaklingurinn hafi kraftinn innra með sér til þess að lifa fallegu og hamingjusömu lífi. Við vitum líka að hver einstaklingur er sérfræðingur í sínu eigin lífi og við göngum út frá því. Við erum hér til staðar, aðstoðum og leiðbeinum þér til þess að finna aftur valdið og fegurðina innra með sjálfum þér.
Allir sem starfa hjá Drekaslóð eru með persónulega reynslu af ofbeldi, hvort sem það er okkar eigin eða sem aðstandandi. Við höfum unnið okkur út úr afleiðingum ofbeldis og trúum á að ráðgjöf og jafningjafræðsla sé öflugt verkfæri til þess að takast á við margvíslegar birtingarmyndir afleiðinganna. Við erum fjölbreyttur hópur sem störfum hjá Drekaslóð og með ólíka menntun og ólíkan bakgrunn. Hjá okkur starfa meðal annars einstaklingar sem eru menntaðir í félagsráðgjöf, þroskaþjálfun, sálmeðferðarfræði og sem kennari, auk þess sem ráðgjafar okkar hafa áralanga reynslu af ráðgjöf og ýmis konar fræðslustarfi.
Þér er ávallt velkomið að hafa samband við einstaka starfsmenn en einnig getur þú sent skilaboð beint á okkur með því að smella HÉR

Thelma Ásdísardóttir
Stjórnarformaður og ráðgjafi
Thelma er einn af stofnendum Drekaslóðar og í fullu starfi hjá samtökunum. Hún sinnir ýmis konar ráðgjöf og fræðslu, auk þess sem hún leiðbeinir og þróar hópastarf ásamt mörgu öðru. Thelma sinnir einnig ráðgjafastarfi í Krýsuvík og situr í stjórn þeirra samtaka. Hún hefur einnig unnið mikið með Hugarafli undanfarin ár og haldið utan um Drekasmiðjuna sem hefur náð miklum vinsældum. Thelma hefur áralanga reynslu af fræðslustarfi og ráðgjöf og hefur unnið með þolenum ofbeldis síðan 1994. Thelma situr í stjórn Drekaslóða og í samvisku samtakana.
Tölvupóstfang: thelma@drekaslod.is

Ingibjörg Kjartansdóttir
Ráðgjafi
Ingibjörg Kjartansdóttir er einn af stofnendum Drekaslóðar. Hún starfar sem ráðgjafi og hefur haldið utan um opnu stuðningsfundi Drekaslóðar. Ingibjörg leiðbeinir einnig hópum og hefur boðið upp á einstaklingsviðtöl í Reykjanesbæ þar sem hún er búsett. Ingibjörg er skjúkraliði að mennt og er með áralanga reynslu af ráðgjafastarfi og að leiðbeina þolenum ofbeldis. Ingibjörg situr í Samvisku Drekaslóðar
Tölvupóstfang: ingak@drekaslod.is

Ásta Knútsdóttir
Ráðgjafi
Ásta er þroskaþjálfi að mennt og starfar sem ráðgjafi og aðstoðarleiðbeinandi hjá Drekaslóð. Ásta hefur 35 ára starfsreynslu af vinnu með einstaklingum með þroskahömlun og aðrar fatlanir. Ásta býður þá sem tilheyra þeim hópi sérstaklega velkomna. Ásta situr einnig í samvisku Drekaslóðar.
Tölvupóstfang: asta@drekaslod.is

Málfríður Hrund Einarsdóttir
Ráðgjafi
Málfríður Hrund Einarsdóttir, eða Fríða eins og hún er kölluð, hefur starfað sem ráðgjafi hjá Drekaslóð um fjögurra ára skeið. Hún er með einstaklingsviðtöl og leiðir einnig hópastarf. Fríða er auk þess formaður Hugarafls og þekkir því vel til geðheilbrigðismála. Fríða situr í Samvisku Drekaslóðar.
Tölvupóstfang: frida@drekaslod.is

Ingibjörg Þórðardóttir
Sérfræðingur
Ingibjörg Þórðardóttir starfar sem sérfræðingur hjá Drekaslóð og hefur meðal annars umsjón með handleiðslu fyrir starfshópinn og þróun gæðamats. Ingibjörg er félagsráðgjafi að mennt, með MA, og diplómanám frá Bretlandi í ráðgjöf og meðferð í fjarþjónustu. Hún hefur unnið með þolendum ofbeldis og aðstandendum þeirra frá árinu 2005. Ingibjörg hefur haldið ýmis námskeið fyrir konur og stúlkur, ýmis námskeið um heimilis- og kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn börnum, ásamt annarri fræðslu. Ingibjörg rekur Hugrekki – ráðgjöf og fræðlsu þar sem í boði er samtalsmeðferð fyrir einstaklinga og fjölskyldur og er einnig frumkvöðull í því að bjóða félagsráðgjöf í gegnum netið. Ingibjörg situr í fagráði Drekaslóðar.
Tölvupóstfang: ingibjorg@drekaslod.is

Kristín Helga Magnúsdóttir
Ráðgjafi
Kristín Helga Magnúsdóttir starfar sem ráðgjafi á Velferðarsviði Reykjanesbækjar en hefur komið að starfinu í Drekaslóð á ýmsa vegu. Hún hefur meðal annars unnið sem ráðgjafi, tekið símavaktir ásamt því að taka þátt í þróun starfsins. Kristín er með BA gráðu í félagsráðgjöf ásamt viðbótardiplómu í áfengis- og vímuefnamálum. Kristín situr í Samvisku Drekaslóðar.
Tölvupóstfang: kristinhelga@drekaslod.is

Ruth Ásdísardóttir
Vefstjóri
Ruth Ásdísardóttir er einn af stofnendum Drekaslóðar. Hún starfar sem vefstjóri og hefur umsjón með samfélagsmiðlum samtakanna. Ruth er menntuð sem bókmennta- og menningarfræðingur og er með MIS gráðu í upplýsingafræði.
Tölvupóstfang: ruth@drekaslod.is