Drekaslóð lokar
Frá árinu 2010 hefur Drekaslóð boðið þjónustu til þolenda ofbeldis og aðstandenda þeirra og hafa samtökin verið mjög mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem þegar var til staðar. Frá upphafi hefur ásókn verið mikil og með tímanum hefur biðlistinn lengst og er, þegar þessi orð eru rituð, um 2ja til 3ja ára biðlisti til ráðgjafa samtakanna. Slíkur biðlisti er óásættanlegur, bæði fyrir notendur og starfsfólk, og því miður er fjárhagsstaða samtakanna þannig að ekki er lengur hægt að standa undir þjónustunni. Það er því með sorg í hjarta sem við Drekar tilkynnum að Drekaslóð mun loka í árslok 2022. Þetta var erfið ákvörðun og tekin að vel athuguðu máli, umræðum og eftir ýmis konar lausnaleit í langan tíma.
Þessir síðustu mánuðir verða notaðir, eins og kostur er, til að aðstoða notendur við að leita annað til að halda áfram úrvinnslu sinni. Þau sem það vilja munu því fá leiðbeiningar um hvert hægt er að leita eftir aðstoð. Einnig verður lögð áhersla á það að notendur fái, eftir fremsta megni, að ljúka viðtölum með ráðgjafa sínum hjá samtökunum. Það er mjög mikilvægt að veita þennan tíma til að ljúka starfseminni þar sem þau sem til samtakanna leita þurfa svigrúm og tíma til að finna aðrar úrlausnir og/eða ljúka úrvinnslu sinni með ráðgjafa sínum hjá Drekaslóð. Þá verður þessi tími einnig nýttur til að loka þeim málum sem nauðsynlegt er til að ljúka starfseminni.
Það er alveg ljóst að þörf er á starfsemi eins og þeirri sem Drekaslóð hefur haldið úti síðastliðinn 12 ár en því miður dugir það fjármagn sem til samtakanna kemur, ekki til þess að standa undir starfseminni. Ráðgjafar og starfsfólk er of fátt, álag allt of mikið og ekki hefur myndast fjárhagslegur grundvöllur til að fjölga starfsfólki eða stöðugildum, þrátt fyrir langan og fjölmennan biðlista. Því er staðan slík að ekki er hægt að láta starfsemina ganga upp áfram. Á þessum árum hafa mörg hundruð einstaklinga nýtt sér viðtöl og hópastarf samtakanna, auk allra þeirra sem hafa notið þjónustunnar í samstarfi við Krýsuvík, Hugarafl og Bjarkarhlíð.
Á þessum tímamótum erum við þó einnig verulega þakklát og stolt af því starfi sem unnið hefur verið innan samtakanna. Við erum öllu okkar starfsfólki, samstarfsaðilum og öllum öðrum velunnurum innilega þakklát fyrir störfin, stuðninginn og hlýhug sem við höfum fundið í gegnum tíðina. Síðast en svo aldeilis ekki síst, þökkum við öllum þeim sem til okkar hafa leitað fyrir allt það traust sem þið hafið sýnt okkur og allt sem við höfum lært af því að hafa fengið að vinna með ykkur í gegnum árin. Án ykkar hefði Drekaslóð ekki orðið til og við ekki lært allt það sem við höfum lært. Þau ykkar sem hafa verið á biðlistanum okkar og ekki enn komist að viljum við biðjast afsökunar á að hafa ekki komið ykkur að.
Kærleikskveðjur frá Drekunum

Um okkur
Drekaslóð er í mikilli sérstöðu í samfélaginu en allt frá upphafi höfum við boðið alla þolendur ofbeldis velkomna.
Þjónusta í boði
Drekaslóð býður þolendum ofbeldis upp á ýmsa þjónustu, eins og einstaklingsráðgjö, stuðningshópa og ýmsa fræðslu
Viltu styrkja Drekaslóð
Smelltu hér og styrktu starfið okkar. Með hjálp ykkar tekst okkur að gera meira og hjálpa fleirum.
Frá starfinu









Opnunartími:
Drekaslóð er ekki með hefðbundin opnunartíma. Tekið er á móti einstaklingum með pantaðan tíma og hópum á skipulögðum tímum.